Innlent

Tvö stærstu skipin koma í september

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Skipið var vígt í júní í fyrra svo það er rétt svo að jómfrúrsvipurinn verði farinn af því þegar það kemur í Reykjavíkurhöfn. mynd/Princess Cruises
Skipið var vígt í júní í fyrra svo það er rétt svo að jómfrúrsvipurinn verði farinn af því þegar það kemur í Reykjavíkurhöfn. mynd/Princess Cruises
Umferð skemmtiferðaskipa eykst sífellt, samkvæmt tölum Faxaflóahafna, og stærð skipanna gerir skip íslenska flotans nær hlægileg í samanburði. Þann 14. september næstkomandi er von á stærra skipi en nokkru sinni hefur komið en það er skemmtiferðaskipið Royal Princess. Það er 139 þúsund tonna skip og tekur yfir þrjú þúsund og fimm hundruð farþega eftir því sem fram kemur á vefsíðu Princess Cruise sem á skipið. Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir algengt að um 1.500 manna áhöfn sé á þessum stærstu skipum. Það verða því álíka margir við hafnarbakkann og íbúar Vestmannaeyja og Hellu þegar prinsessan atarna kemur til hafnar.

Nóg verður um að vera í höfninni í september því þá er einnig von á skemmtiferðaskipinu Adventures of the Seas sem er 137 þúsund brúttótonn. Það hefur áður komið hingað og er það nú þegar hið stærsta skip sem það hefur gert.

En það er ekki vandalaust að taka á móti slíkum fjölda. Örvar Már Kristinsson, formaður Félags íslenskra leiðsögumanna, segir að faglærðir leiðsögumenn hrökkvi skammt þegar umferð skemmtiferðaskipa er sem mest og þá er hætt við að margir farþegar fari undir handleiðslu ófaglærðra leiðsögumanna. Ferðaskrifstofur eru skyldugar samkvæmt samningi til að leita til faglærðra fyrst en þegar stærstu hóparnir koma er jafnvel látið nægja að manneskja með næga tungumálakunnáttu leiðsegi hópi.

„Annar vandi er sá að þegar stærstu skipin og jafnvel mörg á sama tíma koma fyllast okkar vinsælustu viðkomustaðir eins og til dæmis í gullna hringnum,“ segir hann. „Það er spurning hversu áhrifarík koma ferðamannsins er á stað sem er fullur af fólki. Við þurfum að fara að huga meira að því hvernig áfangastaður við viljum að Ísland sé.“

Ágúst segir að ef allar áætlanir gangi eftir muni um hundrað þúsund farþegar halda til hafna hér í sumar, sem er um átta þúsund fleiri en síðasta ár. Byrjað var að markaðssetja Faxaflóahafnir í þessum tilgangi snemma á tíunda áratugnum en það var ekki fyrr en um aldamótin síðustu sem þetta fór að taka á sig þá mynd sem við könnumst við í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×