Innlent

Tvö slösuð eftir bílveltu í Ísafjarðardjúpi

Gissur Sigurðsson skrifar
Hestfjörður er við Ísafjarðardjúp.
Hestfjörður er við Ísafjarðardjúp. Kort/Loftmyndir.is
Íslenskt par slasaðist þegar bíll þeirra valt út af þjóðveginum í Hestfirði við Ísafjarðardjúp klukkan hálf þrjú í nótt og hafnaði í flæðarmálinu fyrir neðan. Sjó var að flæða að og var fólkið fyrst fast í flakinu og var annað þeirra það enn, þegar fyrsta aðstoð barst.

Lögreglumenn þurftu að beita áhöldum til að ná hinu úr flakinu og segir lögregla að fólkið hafi verið í hættu á vettvangi. Fólkið var flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem það fékk fyrstu meðferð áður en það var sent með sjúkraflugi á slysadeild Landsspítalans í Reykjavík til framhaldsmeðferðar.

Að sögn læknis á Ísafirði hlaut fólkið meðal annars beinbrot en er ekki í lífshættu og héldu bæði meðvitund allan tímann. Lögregla rannsakar nú tildrög slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×