Körfubolti

Tvö naum töp á þremur dögum hjá Jakobi og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í leik með Borås.
Jakob Örn Sigurðarson í leik með Borås. mynd/borås basket
Jakob Sigurðarson snéri aftur í lið Borås Basket eftir eins leiks fjarveru vegna meiðsla en hann og félagar hans voru nálægt sigri á útivelli á móti liðinu í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Borås Basket tapaði þá 75-70 á móti Norrköping Dolphins en mikil spenna var í lokin þegar leikmenn Borås voru nálægt því að vinna upp forskotið.

Jakob Sigurðarson var með 14 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar í leiknum. Hann skilaði 18 framlagsstigum og framlagshæstur í liðinu ásamt Christian Maråker.

Jakob hitti vel en 4 af 7 skotum hans rötuðu rétta leið. Jakob skoraði 3 af stigum sínum í blálokin en liðsmenn Norrköping Dolphins hittu vel úr vítum og lönduðu sigrinum.

Þetta var annað nauma tap Borås Basket á aðeins þremur dögum en liðið tapaði með þremur stigum á móti Södertälje Kings á þriðjudagskvöldið. Þar var liðið hinsvegar án Jakobs og saknaði hans mikið.

Borås Basket er áfram í sjötta sæti deildarinnar en hefur aðeins unnið þrjá af síðustu tíi leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×