Innlent

Tvö mál sem varða kynferðislega áreitni farið fyrir dómstóla hér á landi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir. vísir/brjánn jónasson
Tvö mál sem varða kynferðislega áreitni hafa farið fyrir dómstóla hér á landi frá árinu 2004. Meintur gerandi var sýknaður í fyrra málinu en dæmdur í því síðara. Þá hafa tvö mál farið fyrir kærunefnd jafnréttsmála en í hvorugu málinu var tekin afstaða til þess hvort um kynbundna eða kynferðislega áreitni hafi verið að ræða.  

Þetta sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, á fundi á Grand hóteli í dag um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustöðum.

„Í lögfræðinni horfum við helst til fordæma til að reyna að útskýra hvaða hegðun gæti fallið undir hugtökin. En þau eru af ansi skornum skammti hvað varðar þetta efni.

Fyrra málið sem fór fyrir dómstóla sneri að kynferðislegri áreitni sem kona, starfsmaður hjá ISAVIA, sagðist hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns árið 2011. Konan sagði hann meðal annars hafa berað sig fyrir framan hana í heitum potti en Hæstiréttur hafnaði því að yfirmaðurinn hefði brotið kynferðislega á konunni. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt fyrirtækið til að greiða konunni bætur, en Hæstiréttur sneri þeim dómi við árið 2012.

Seinna málið kom upp árið 2014. Varðstjóra á Litla-Hrauni var gefið að sök að hafa strokið yfir brjóst samstarfskonu sinnar og var dæmdur í eins mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Sonja segir þær lagabreytingar sem orðið hafa í þessum málum afar mikilvægar. Þær snúi meðal annars að aukinni ábyrgð og forvörnum atvinnurekenda og að nú taki lögin einnig til þriðja aðila. „Það er til einstaklinga sem ekki eru starfsmenn en samskiptin eiga sér stað í tengslum við þá starfsemi sem fer fram á vinnustöðum.“

Rannsóknir hafa sýnt að um helmingur kvenna á vinnumarkaði í þróuðum löndum á vinnumarkaði hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti. Þá eru vísbendingar um að fólk í þjónustustörfum verði frekar fyrir kynferðislegri áreitni en fólk í öðrum starfsstéttum, líkt og fjallað var um hér.


Tengdar fréttir

Þolendur eiga erfitt með að stíga fram

Fátítt er að fólk sem hefur orðið fyrir kynbundinni og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum ræði það opinberlega. Um helmingur kvenna á vinnumarkaði hefur orðið fyrir áreitni samkvæmt skýrslu Alþjóðasambands verkalýðsfélaga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×