Innlent

Tvö kúabú svipt starfsleyfi

Heimir Már Pétursson skrifar
Tvö kúabú hafa misst starfsleyfið og tvö önnur þurfa að bæta ráð sitt áður en tekið verður aftur á móti mjólk frá þeim til dreifingar. Lögfræðingur Matvælastofnunar segir neytendur þó ekki hafa stafað hætta af mjólk frá búunum.

Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu mjólkur frá fjórum kúabúum í Vesturumdæmi og Suðvesturumdæmi. Steinþór Arnarson lögfræðingur Matvælastofnunar segir þetta gert vegna ítrekaðra brota.

„Það hafa verið gerðar kröfur um úrbætur og þeim og þeim ekki sinnt. Þá enda málin þannig að grípa verður til þvingunarúrræða,“ segir Steinþór.

Hefur einhver vara farið í dreifingu frá þessum bæjum sem er kannski ekki holl neytendum?

„Það er engin ástæða til að ætla það. Þetta er svona fyrirbyggjandi miklu frekar. Að gæta að hollustuháttum,“ segir Steinþór.

Á einum bænum hafi verið ófullnægjandi skýringar á framleiðslumagninu. Framleiðslan sé ótrúlega mikil miðað við fjölda gripa á bænum.

Bendir það þá til að þau séu að fá mjólk frá öðrum bæjum?

„Við ætlum alla vega að fá botn í það mál áður en opnað er fyrir dreifingu aftur frá þessum bæ,“ segir Steinþór.

Í öðrum málum séu gerðar athugasemdir við aðbúnað gripanna og hreinlæti, en engum sektum er beitt í þessum málum.

„Í tveimur málanna er búið að afturkalla starfsleyfið og menn þurfa þá að sækja um starfsleyfið að nýju og uppfylla þá allar kröfur. Í hinum málunum er þetta bara stöðvun þar til ákveðnar kröfur hafa verið uppfylltar,“ segir Steinþór Arnarson lögfræðingur Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×