Erlent

Tvö hundruð þúsund forða sér vegna flóða

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vatnflaumurinn streymir úr skemmdri yfirfallsrás Oroville-stíflunnar í Kaliforníu.
Vatnflaumurinn streymir úr skemmdri yfirfallsrás Oroville-stíflunnar í Kaliforníu. vísir/epa
Nærri 190 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín í Kaliforníu á sunnudag vegna flóðahættu, þar sem skemmdir höfðu orðið á yfirfallsrás Oroville-stíflunnar.

Vatn streymdi af miklum krafti frá yfirfallsrásinni, en stuttu síðar minnkaði vatnsstreymið verulega. Hættan var þó ekki liðin hjá, því spáð er hvassviðri seinna í vikunni og þá má búast við flóðum.

Ekki er ljóst hvenær fólkið getur snúið aftur til síns heima en yfirvöld segja að erfitt verði að gera við yfirfallsrásina.

Stíflan er nærri hálfrar aldar gömul og 235 metrar á hæð, sú hæsta í Bandaríkjunum, og uppistöðulón hennar, Oroville-vatnið, er eitt af stærstu manngerðu stöðuvötnum í Kaliforníu.

Engin hætta er á því að stíflan sjálf bresti, hins vegar getur vatn flætt í stórum stíl yfir stíflubrúnina ef yfirfallsrásin virkar ekki eins og skyldi. Enn meiri hætta er þó á því að yfirfallsrásin skemmist enn frekar sem þýddi að mikill vatnsflaumur streymdi þaðan út og niður yfir byggðina fyrir neðan.

„Bresti yfirfallsrásin mun vatnsflóð streyma stjórnlaust niður frá Oroville-vatni,“ segir í tilkynningu til íbúa frá stjórnvöldum. 

Jerry Brown, ríkisstjóri í Kaliforníu, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði aðstæður þarna vera flóknar og að þær geti breyst hratt. Allur tiltækur mannafli og búnaður hafi verið sendur til þess að takast á við vandann.

Þá hefur þjóðvegum neðan stíflunnar verið lokað og umferðinni beint annað.

Skemmdin á yfirfallsrásinni stafar af jarðrofi sem varð skyndilega fyrir nokkrum dögum, með þeim afleiðingum að hluti rásarinnar brast og stórt gat myndaðist á henni. Í nágrenninu býr fjöldi fólks og öll sú byggð er í verulegri hættu ef illa fer.

Mikil umskipti hafa orðið í Kaliforníu þennan veturinn, því eftir mikla þurrka árum saman hefur úrkoma skyndilega orðið með allra mesta móti, bæði regn og snjókoma.

Úrkoman hefur þó verið mest í norðanverðri Kaliforníu. Sunnan til eru enn þurrkar, en þó ekki eins alvarlegir og verið hefur undanfarin misseri. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×