Innlent

Tvö flugfélög hætta áætlunarflugi til Íslands

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Flybe og Thomas Cook hætta að fljúga til Islands.
Flybe og Thomas Cook hætta að fljúga til Islands. vísir/vilhelm
Flugfélagið Flybe sem síðustu sjö mánuði hefur flogið milli Keflavíkur og Birmingham mun hætta ferðum í lok mars. Flugfélagið ætlar að einbeita sér að öðrum áfangastöðum og verður Icelandair því eina flugfélagið sem býður upp á flug héðan til næst stærstu borgar Bretlands. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is.

Boðið upp á endurgreiðslu

Paul Simmons, framkvæmdastjóri Flybe, segir í samtali við Túrista.is að leiðakerfi fyrirtækisins sé sífellt endurmetið og að niðurstaða nýlegrar skoðunar hafi verið sú að leggja niður flug til nokkurra áfangastaða, þar á meðal til Keflavíkur. Hann segir að þeim sem áttu miða í ferðirnar verði boðin endurgreiðsla.

Flybe er annað flugfélagið á skömmum tíma sem hættir flugi til Íslands en belgíska flugfélagið Thomas Cook airlines tilkynnti í lok síðasta árs að félagið muni ekki fljúga hingað til lands í sumar frá Brussel líkt og félagið hefur gert síðustu tvö ár. Icelandair verður því einnig eina flugfélagið sem flýgur á milli Keflavíkur og Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×