Innlent

Tvítugur Íslendingur selur fisk í Dúbaí

Bjarki Ármannsson skrifar
Gunnar Snorri Hólm er tvítugur Íslendingur sem býr í Dúbaí og selur þar fisk. Faðir hans á þrjár fiskvinnslur í Noregi, þar sem Gunnar hefur búið nær alla ævi, og selur Gunnar þorsk og ýsu frá honum til heildsala í Dúbaí.

„Það gengur mjög vel,“ segir Gunnar, sem var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. „Núna í júní byrjum við að flytja inn næstum því þrjátíu tonn á mánuði.“

Leið Gunnars lá til Dúbaí fyrir tilviljun en hann hitti nokkra drengi frá Dúbaí á ferðalagi í Grikklandi fyrir um einu og hálfu ári, þar af einn sem var í fiskibransanum.

„Ég gaf honum tölvupóstfangið mitt og við töluðum saman eftir það,“ segir Gunnar. „Það varð til þess að okkur var boðið til Dúbaí.

Nú hefur Gunnar komið sér vel fyrir í mið-austurlensku stórborginni, þó hann kvarti örlítið undan hitanum. En hvernig fisk vilja íbúar Dúbaí?

„Þeir vilja þorsk. Það er hefð fyrir því í Dúbaí að borða fisk sem heitir hammour, sem er mjög líkur þorski.“

Gunnar segist vel geta hugsað sér að búa lengur í Dúbaí og jafnvel færa angana út til nágrannaríkjanna Katar, Óman og Sádi-Arabíu í framtíðinni. Þá segir hann að hann langi til að auka fiskmagnið sem hann flytur inn upp í fimmtíu eða sextíu tonn á mánuði.

Heyra má viðtalið við Gunnar í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×