Erlent

Tvítug barnapía fer ekki í fangelsi fyrir barnaníð gegn 11 ára dreng

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Faðir drengsins lýsti syni sínum sem "kynóðum“ en hann hafði einnig átt í kynferðislegu sambandi við barnapíuna.
Faðir drengsins lýsti syni sínum sem "kynóðum“ en hann hafði einnig átt í kynferðislegu sambandi við barnapíuna. vísir/getty
Tuttugu og eins árs gömul barnapía sem braut kynferðislega gegn 11 ára dreng mun ekki fara í fangelsi þar sem dómari taldi konuna svo óþroskaða andlega að aldursmunurinn á milli fólksins væri í raun minni en 10 ár.

Konan, Jade Hatt sem er frá Swindon í Englandi, var að passa drenginn þegar hún afklæddist, klæddi hann úr og hafði kynmök við hann.

Faðir drengsins lýsti syni sínum sem „kynóðum“ en hann hafði einnig átt í kynferðislegu sambandi við barnapíuna. Þá sagði faðirinn son sinn mjög reynslumikinn í kynlífi og varði Hatt sem hann sagði óþroskaða. Atvikið hefði auk þess ekki haft mikil áhrif á son hans.

Dómarinn tók tillit til þessa þegar hann kvað upp dóminn og sagði við Hatt:

„Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins er nokkuð augljóst að hann var þroskaður 11 ára drengur og þú óþroskuð tvítug kona svo það minnkar aldursmuninn á ykkur. Þá hef ég lesið vitnisburð föður drengsins hjá lögreglunni þar sem hann segist ekki líta á þig sem venjulega tvítuga konu. Ég hef einnig farið yfir það hvaða áhrif þetta á að hafa haft á drenginn.“

Hatt var því dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Þá verður hún skráð á lista yfir kynferðisbrotamenn næstu sjö ár auk þess sem hún má ekki hafa samband við unga drengi næstu tvö árin án liðveislu.

Nánar má lesa um málið á vef Telegraph.

Uppfært: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt og því hafa allar athugasemdir við fréttina dottið út. Beðist er velvirðingar á þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×