Innlent

Tveir túrar yfir 3.000 tonnum

Svavar Hávarðsson skrifar
Beitir NK er flaggskip íslenska uppsjávarveiðiflotans. Mynd/KSH
Beitir NK er flaggskip íslenska uppsjávarveiðiflotans. Mynd/KSH
Skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Beitir NK, hefur eftir tvær síðustu veiðiferðir landað um og yfir þrjú þúsund tonnum af kolmunna á Seyðisfirði. Þetta eru tveir stærstu farmar sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.

Á vef fyrirtækisins er rætt við skipstjórann Tómas Kárason sem var að vonum hæstánægður.

„Veiðin hefur gengið mjög vel upp á síðkastið og höfum við verið að fá 600 til 700 tonn á sólarhring. Aflinn í þessum túr fékkst til dæmis í sex holum. Við vorum nú að veiðum um 60 sjómílur suðaustur úr Akrabergi syðsta odda Færeyja,“ sagði Tómas.

Beitir NK er stærsta uppsjávarskip landsins, 86,3 metrar að lengd, 17,6 að breidd og 4.138 brúttótonn. Burðargeta skipsins er 3.200 tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×