Íslenski boltinn

Tveir Þróttarar leystir undan samningi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kalli hættur í Þrótti
Kalli hættur í Þrótti
Karl Brynjar Björnsson og Víðir Þorvarðarson munu ekki leika fleiri leiki fyrir Þrótt Reykjavík í Inkasso-deildinni í sumar en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að þeir félagar hafi fengið samningum sínum við knattspyrnudeild Þróttar rift en þeir voru báðir á samning út þetta leiktímabil.

Víðir gekk til liðs við Þróttara fyrir tímabilið 2017 og hefur leikið átta leiki í sumar en hann hefur einnig leikið með Fylki, ÍBV og Stjörnunni.

Karl Brynjar hefur spilað sjö leiki í Inkasso-deildinni í sumar en hann hefur verið á mála hjá Þrótti síðan árið 2012. Hann hóf leiktíðina sem fyrirliði Þróttar.

Í tilkynningu Þróttar er þeim Víði og Karli þakkað fyrir frábært framlag til félagsins og óskað góðs gengis í komandi verkefnum.

Þróttur er í 5.sæti Inkasso-deildarinnar með sextán stig þegar mótið er hálfnað en liðið skipti um þjálfara skömmu fyrir mót þegar Gregg Ryder sagði upp og tók Gunnlaugur Jónsson við stjórnartaumunum í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×