Lífið

Tveir þekktir hlunkar keppa í megrun

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir voru ekki sultarlegir á svipinn, nautnabelgirnir Ragnar og Gústaf þegar þeir hámuðu í sig saltkjetið. En, á morgun tekur alvaran við.
Þeir voru ekki sultarlegir á svipinn, nautnabelgirnir Ragnar og Gústaf þegar þeir hámuðu í sig saltkjetið. En, á morgun tekur alvaran við. visir/pjetur
„Jájá, þetta smakkaðist vel,“ segir Ragnar Sót sem kjamsar á því sem kallast Síðasta máltíðin. Og hún var valin af kostgæfni: Saltkjöt og baunir og það slöfruðu þeir félagar í sig á BSÍ, hinir ánægðustu. Og nutu hvers bita því nú tekur alvaran við.

Þeir félagar Ragnar Sót Gunnarsson og Gústaf Níelsson, athafnamenn, eru orðnir alltof þungir. Svo það sé sagt alveg eins og er. Fjallmyndalegir en, of skvapaðir. Ragnar er kominn í 130 kíló... „Neinei, 129,7,“ grípur Ragnar inní. Einmitt. Þeir hafa því ákveðið að skora hvor á annan í megrun. Keppnin mun standa í sex vikur og sá sem hefur náð af sér fleiri kílóum, hann sigrar. Þeir félagar hafa góðfúslega fallist á það að Vísir fái að fylgjast með þessari keppni sem hefst með vigtun í Árbæjarlaug strax fyrir hádegi á morgun.

„Við erum búnir að spá lengi í þetta og vorum í megrunarátaki í vetur, báðir tveir. Þar sem ég burstaði Gústa, þegar ég skreið niður fyrir 120 kílóin,“ segir Ragnar og telur sigurinn vísan.



En, nú hefur svona opinbert megrunarátak reynst misvel, ef við til dæmis lítum til frægasta hlunks Íslands, Gauja litla?

„Það er þess vegna sem við stofnuðum þetta lífsleiknifélag, Lipurtá, og í þetta félag geta allir gengið sem eru 125 kíló plús. Já, miklir nautnabelgir og afskaplega lítið fyrir að hreyfa okkur. Þannig að þetta mun taka á. En, ég er nú gömul íþróttastjarna og Íslandsmeistari í nokkrum íþróttagreinum þannig að það er bara að rifja upp gamla takta og þá er ég nokkuð viss um að þetta verði leikur einn.“

Ragnar segir að nú sé verið að athuga hvort vert sé að setja upp veðbanka í tengslum við þessa keppni en þá verði búið svo um hnúta að engin lög verði brotin vegna þessa. „En, það er klárt að sigurvegarinn í keppninni mun sitja fyrir nakinn á Ísbjarnarskinni þegar þessu er lokið,“ segir Ragnar og gefur ekkert fyrir að slík myndataka, sem mun fara fram á vegum Vísis, geti talist á gráu svæði gagnvart lögum.

Hér fyrir neðan má heyra Ragnar syngja lagið Aukakílóin með hljómsveit sinni Skriðjöklum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×