Innlent

Tveir sendir á sjúkrahús eftir hnífabardaga á Akureyri

Birgir Olgeirsson og Sveinn Arnarsson skrifa
Lögreglan er nú að störfum á vettvangi líkamsrárásarinnar.
Lögreglan er nú að störfum á vettvangi líkamsrárásarinnar. Vísir/Sveinn Arnarsson
Lögreglan á Akureyri handtók í hádeginu í dag tvo karlmenn eftir að hnífabardagi braust út á heimili annars þeirra norðan heiða. Mennirnir búa hvor í sinni félagslegu íbúðinni og segir rannsóknarlögreglumaður að mennirnir séu góðkunningjar þeirra í lögreglunni.

Gunnar Jóhannes Jóhannsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Akureyri, segir í samtali við Vísi að kastast hafi í kekki á milli tveggja nágranna.

„Þeim verður sundurorða af einhverjum rannsóknum sem eru ekki ljósar ennþá,“ segir Gunnar Jóhannes. Þeir hafi báðir gripið til hnífa og veitt hvor öðrum áverka, þó ekki lífshættulega. Hann sagðist eiga von á því að mennirnir yrðu báðir útskrifaðir af sjúkrahúsi að lokinni aðhlynningu.

„Þetta eru einstaklingar sem eru vel þekktir hjá lögreglu fyrir óreglu og ýmislegt annað,“ segir Gunnar Jóhannes. Mennirnir tveir hafi þekkst vel enda búið hvor á sinni hæðinni í sama húsi undanfarin misseri.

Blaðamaður Vísis náði myndum af lögreglumönnum íklæddum hvítum göllum, skóhlífum og bláum hönskum í húsinu á þriðja tímanum. Gunnar Jóhannes vonast til þess að þeir fái skýringar á því hvað varð til þess að mennirnir urðu svo ósáttir að gripið var til hnífa.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 14:47.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×