Viðskipti innlent

Tveir sakborningar í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis verja sig sjálfir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Höfuðstöðvar Glitnis, nú Íslandsbanka, að Kirkjusandi.
Höfuðstöðvar Glitnis, nú Íslandsbanka, að Kirkjusandi. Mynd/Valli
Tveir sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis þeir Jónas Guðmundsson og Valgarð Már Valgarðsson ætla að verja sig sjálfir en áskilja sér þó þann rétt að fá tilnefnda verjendur mögulega síðar ef þeim þykir tilefni til þess. Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í morgun og féllst dómari á það að tvímenningarnir fái að verja sig sjálfir.

Eftir því sem Vísir kemst næst er ekki algengt að sakborningar verji sig sjálfir í svo umfangsmiklum málum og var það til að mynda ekki tilfellið í markaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans þar sem allir sakborningar voru með verjendur.

Samkvæmt 29. grein laga um meðferð sakamála er sakborningi heimilt að halda sjálfur uppi vörnum í máli kjósi hann það og sé hann hæfur til þess að mati dómara eða lögreglu. Í slíku tilviki skal veita sakborningi sem er ólöglærður leiðbeiningar um formhlið máls eftir því sem nauðsynlegt er og leggur þetta því meiri skyldur á herðar dómara í málinu.

Jónas og Valgarð eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun ásamt þremur öðrum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis.

Þeir voru verðbréfamiðlarar á gólfinu í bankanum þegar meint brot áttu sér stað ásamt Pétri Jónassyni sem einnig er ákærður í málinu en tveir toppar úr Glitni, þeir Lárus Welding sem var forstjóri bankans og Jóhannes Baldursson sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs sæta einnig ákæru fyrir markaðsmisnotkun. Þá er Lárus einnig ákærður fyrir umboðssvik.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. apríl síðastliðinn. Við þingfestinguna neituðu fimmmenningarnir allir sök en næsta fyrirtaka í málinu er sett þann 15. júní.


Tengdar fréttir

Lárus hafi ákveðið að bjóða starfsmönnum bankans að kaupa hlutabréf í Glitni með lánum frá bankanum sjálfum

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, er ákærður fyrir umboðssvik vegna milljarða lánveitinga til fjórtán einkahlutafélaga í eigu jafnmargra starfsmanna bankans. Lánveitingarnar eru hluti af ákæru héraðssaksóknara í umfangsmiklu markaðsmisnotkunarmáli sem þingfest verður í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. apríl næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×