Innlent

Tveir ölvaðir ökumenn skiptu um sæti á ferð

Bjarki Ármannsson skrifar
Úr Grafarvogi.
Úr Grafarvogi. Vísir/Pjetur
Lögreglumenn á eftirlitsferð í Grafarvogi veittu athygli bifreið sem karlmaður ók um fimmleytið í nótt. Hugðust þeir kanna ástand ökumannsins en við eftirfylgd sást að karlmaðurinn færði sig úr ökumannssætinu á meðan bifreiðin var á ferð og skipti við konu sem var farþegi í framsæti.

Við skýrslutöku sagðist konan hafa viljað forða karlmanninum frá vandræðum þar sem hann hafði áður verið sviptur ökurétti. Ekki höfðu þau þó erindi sem erfiði og þegar lögregla stöðvaði bílinn kom í ljós að bæði vöru þau ölvuð. Voru þau handtekin og blóðsýni tekin frá þeim á lögreglustöð.

Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir einnig að tveir aðrir ökumenn hafi verið stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur á sjötta tímanum í morgun en að öðru leyti hafi sunnudagurinn farið „dásamlega“ af stað hjá lögreglu.
 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×