Innlent

Tveir menn handteknir grunaðir um innbrotafaraldur á Suðurlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan segir mennina grunaða í það minnsta um sex innbrot á Suðurlandinu.
Lögreglan segir mennina grunaða í það minnsta um sex innbrot á Suðurlandinu. vísir/gva
Lögreglan handtók tvo karlmenn á Kirkjubæjarklaustri á þriðja tímanum í dag sem grunaðir eru um innbrotafaraldur á Suðurlandi. Lögreglan á Suðurlandi hafði fyrr í dag lýst eftir bíl sem var stolið í Reykjavík í nótt og var sá grunur uppi um að hann hefði verið notaður við þessi innbrot. Voru mennirnir sem handteknir voru á Kirkjubæjarklaustri á umræddum bíl.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarsson, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurlandi, er vitað um allavega sex innbrot sem framin í umdæmi lögreglunnar síðasta sólarhring og ná þau yfir ansi stórt svæði, rétt austan við Selfoss og alveg að Kirkjubæjarklaustri.

Brotist var inn í apótekið á Hellu, Beinaverksmiðjuna í Flóanum fyrir austan Selfoss, hótel í Drangshlíð, sjoppuna við Landvegamót og  sumarbústað við Kirkjubæjarklaustur.

Sveinn Kristján segir málið til rannsóknar og liggja því ekki fyrir upplýsingar um andvirði þýfisins sem innbrotsþjófarnir höfðu á brott með sér.

Hann segir ekki vitað að svo stöddu hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum en lögreglumenn frá Selfossi og alveg austur að Höfn hafa tekið þátt í rannsókn málsins. „Það er allt Suðurlandið sem liggur undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×