Erlent

Tveir létu lífið í hnífaárás í Jerúsalem

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn þrífa blóð af götunni.
Slökkviliðsmenn þrífa blóð af götunni. Vísir/AFP
19 ára gamall Palestínumaður stakk tvo menn til bana í Jerúsalem í dag og særði konu og barn alvarlega. Hann var svo skotinn til bana af lögreglu. Nokkrar álíka árásir hafa verið gerðar síðustu daga. Þar má meðal annars nefna að fyrir tveimur dögum voru hjón skotin til bana þar sem þau sátu í bíl ásamt fjórum börnum.

Talsmaður lögreglunnar segir að árásarmaðurinn hafi tekið byssu af öðrum manninum sem hann stakk til bana og skotið að lögregluþjónum og ferðamönnum áður en hann var felldur.

Palestínsku samtökin Islamic Jihad hafa lýst því yfir að árásarmaðurinn sé meðlimur samtakanna. Þar að auki gáfu Hamas samtökin frá sér tilkynningu þar sem árásinni er fagnað.

Undanfarnar vikur hefur verið mikil spenna á milli Palestínumanna og Ísrael vegna Al-Aqsa moskunnar. Palestínumenn segja að þeim hafi verið meinað að biðja í kirkjunni á meðan gyðingar séu þar við bænir.

Samkvæmt Al-Jazeera ríkir nú mikil spenna á svæðinu og hafa hermenn komið sér fyrir nálægt heimili árásarmannsins og stendur til að rífa það. Þá handóku hermenn um 40 manns í moskunni. Benjamin Netanyahu hefur kallað til ríkisstjórnarfundar vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×