Erlent

Tveir látnir í skotárás á næturklúbbi í Flórída

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hefur handtekið einn í tengslum við málið en fleiri er leitað.
Lögregla hefur handtekið einn í tengslum við málið en fleiri er leitað. Vísir/Getty
Tveir eru látnir og um fimmtán særðir eftir skotárás á næturklúbbi í Fort Myers á Flórída í nótt.

Árásin átti sér stað á næturklúbbnum Club Blu í Fort Myers klukkan eitt að staðartíma eða klukkan fimm að íslenskum tíma. Hópur unglinga var inni á staðnum á svokölluðu unglingakvöldi, en að sögn bandarískra fjölmiðla voru yngstu krakkarnir þrettán ára.

Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að einn hafi verið handtekinn í tengslum við málið en að fleiri sé leitað.

Sjónarvottar segja að gestir skemmtistaðarins hafi flúið út af honum eftir að skothríðin hófst. Í frétt Wink News segir að kona sem búi skammt frá staðnum segist hafa heyrt skotið úr skotvopni um þrjátíu sinnum.

49 manns fórust og 53 særðust í árás á skemmtistaðnum Pulse í Orlando fyrir einungis fáeinum vikum.

Uppfært 10:21:

BBC greinir frá því að þrír hafi nú verið handteknir í tengslum við árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×