Erlent

Tveir kennarar grunaðir um kynferðisbrot gegn nemanda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Nemandinn var sextán ára gamall þegar atvikið átti sér stað.
Nemandinn var sextán ára gamall þegar atvikið átti sér stað.
Tveir kennarar við bandarískan gagnfræðiskóla hafa verið handteknir vegna gruns um að þeir hafi brotið kynferðislega gegn karlkyns nemanda við skólann. Kennararnir hafa báðir verið leystir tímabundið frá störfum. Þetta staðfestir lögreglan í Louisiana við bandaríska fjölmiðla.

Huffington Post greinir frá því að kennararnir séu þær Shelley Dufresne, 32 ára, og Rachel Respess, 24 ára. Dufresne hefur starfað við skólann í tíu ár en Respess í tvö. Grunur leikur á að kennararnir tveir hafi hitt nemandann á heimili annarrar þeirra þar sem þau hafi haft samfarir.

Nemandinn var sextán ára gamall þegar atvikið átti sér stað.

Dufresne, þriggja barna móðir, var handtekin í gær en leyst úr haldi gegn 200 þúsund dala tryggingu í gærkvöldi. Hún má ekki yfirgefa heimili sitt nema til að sækja sér sálfræðimeðferð, fara til læknis og í kirkju. Respess gaf sig fram við lögreglu í dag.

Rannsókn málsins hófst á föstudag eftir að aðrir starfsmenn skólans heyrðu af því að nemandinn væri að „monta sig af því við aðra nemendur að hann ætti í kynferðislegu sambandi við kennara“, að því er fram kemur í skýrslu lögreglu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál af þessum toga kemur upp í skólanum. Árið 2008 var karlkyns kennari sakaður um að hafa brotið gegn kvenkyns nemanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×