Innlent

Tveir hópar reyndu að smygla sér um borð í skip á einni nóttu

Hælisleitendur hafa á annan tug skipta á þessu ári reynt að smygla sér um borð í skip Eimskipafélagsins, nú síðast í nótt þegar sjö menn voru handteknir. Ríkislögreglustjóri segir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu of fáliðaða til að eiga við þennan vanda.

Upp úr klukkan hálf tvö í nótt urðu vaktmenn Eimskipafélagsins varir við mannaferðir í kringum girðingu hafnarsvæðisins við Sundahöfn.

Fjórir menn komust inn á svæðið og földu sig bak við gáma sem á hafnarbakkanum standa. Leit hófst þegar í stað að mönnunum sem fundust fljótt enda mikil öryggisgæsla á svæðinu. Ætlun mannanna var að komast um borð í Reykjafoss sem siglir á næstunni vestur um haf. Þeir komust ekki langt því þeir handteknir af lögreglu skömmu eftir komuna inn á svæðið.

Þar með er ekki öll sagan sögð því skömmu eftir að lögreglan var farin með mennina fjóra reyndi annar hópur það sama.

Aftur var kallað til lögreglu sem handtók þrjá menn á svæðinu. Ólafur William Hand, talsmaður Eimskips, segir tilraunir sem þessar hafa færst mjög í vöxt og hafi verið algengar á árinu. Hann vill að stjórnvöld bregðist við ástandinu. Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segir vandamálið hafa verið rætt innan lögreglunnar en mannekla innan hennar setji strik í reikninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×