Erlent

Tveir gíslatökumenn felldir í Frakklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Saint Etienne du Rouvray er suður af Rouen.
Saint Etienne du Rouvray er suður af Rouen. Vísir/EPA
Einn gísl og tveir árásarmenn létu lífið í norðurhluta Frakklands í morgun. Gíslatökumennirnir tveir höfðu tekið fimm manns í gíslingu í kirkju í bænum Saint Etienne du Rouvray. Um var að ræða prest, tvær nunnur og tvo kirkjugesti.

Mennirnir voru skotnir til bana af lögreglu eftir að þeir myrtu prestinn og særðu annan gísl alvarlega. Innanríkisráðuneyti Frakklands segir hann í lífshættu.

Samkvæmt fjölmiðlum í Frakklandi voru upphaflega sex í gíslingu, en einum þeirra tókst að flýja og hafða samband við lögreglu.

Rannsakendur hryðjuverka hafa verið kallaðir til vegna árásarinnar. Ekki liggur fyrir hver ástæða árásarinnar var, né hverjir árásarmennirnir voru.

Þeir eru sagðir hafa skorið prestinn, sem var 86 ára gamall, á háls og verið skotnir af lögreglu þegar þeir hlupu út úr kirkjunni.

Le Point heldur því fram að mennirnir hafi hrópað að þeir væru á vegum Íslamska ríkisins þegar þeir ruddust inn í kirkjuna. Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur staðfest þetta við fjölmiðla. Hann segir að um hryðjuverkaárás hafi veirð að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×