Innlent

Tveir farþegar á gjörgæslu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alls voru 41 um borð í rútunni en hún valt út af Þingvallavegi í morgun.
Alls voru 41 um borð í rútunni en hún valt út af Þingvallavegi í morgun. vísir/vilhelm
Tveir farþegar úr rútunni sem fór út af Þingvallavegi í morgun eru á gjörgæslu Landspítalans en alls eru fimmtán farþegar úr slysinu komnir á spítalann. Ekki fást nánari upplýsingar um líðan farþega frá spítalanum að svo stöddu. 

Alls voru 41 farþegi um borð í rútunni. Flestir farþeganna eru kínverskir en ökumaður rútunnar og leiðsögumaður eru íslenskir.

Farþegar sem voru minna slasaðir fengu aðhlynningu á heilsugæslustöð Mosfellsbæjar og þá opnaði Rauði krossinn fjöldahjálparstöð í bænum þar sem áfallateymi aðstoðar farþega.

Mikill viðbúnaður var vegna slyssins og var viðbragðsáætlun almannavarna virkjuð. Mikill fjöldi sjúkrabíla, lögreglubíla, tækjabíla slökkviliðs og björgunarsveitarfólk var sent á vettvang. Þá var viðbragðsáætlun Landspítalans virkjuð.

Uppfært klukkan 13:15: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru alls 42 farþegar um borð, 40 ferðamenn, ökumaður og leiðsögumaður.

Búið er að gera grein fyrir öllum farþegum en lögreglan óskaði eftir því fyrr í dag að þeir sem kynnu að hafa tekið upp farþega úr rútunni myndu láta lögreglu vita. Var það gert svo lögreglan gæti fullvissað sig um að engan farþega vantaði. Eins og áður segir voru fimmtán farþegar fluttir á Landspítalann og 27 fóru í fjöldahjálparstöðina í Mosfellsbæ.

Rútan er komin á hjólin en tæknivinna er enn í gangi á vettvangi. Vegurinn er því enn lokaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×