Íslenski boltinn

Tveir bikarar geta farið á loft í íslenska fótboltanum í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Blikar geta orðið Íslandsmeistarar í dag.
Blikar geta orðið Íslandsmeistarar í dag. vísir/stefán
Dagurinn í dag gæti verið einn sá stærsti á íslenska fótboltasumrinu þetta árið því tveir stórir titlar geta farið á loft.

Breiðablik getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna, en til þess þarf liðið að vinna Selfoss á útivelli.

Breiðablik er búið að bíða lengi eftir 16. Íslandsmeistaratitlinum, en síðast vann þetta sigursælasta kvennalið Íslandssögunnar titilinn árið 2005.

Blikar eru búnir að vera langbestir í sumar; skora mest í deildinni eða 45 mörk og fá aðeins á sig tvö mörk í fimmtán leikjum sem er ótrúleg tölfræði.

Leikurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi í gegnum Sport TV, en Vísir, N1 og Sport TV hafa staðið að útsendingum frá Pepsi-deild kvenna í allt sumar.

Ejub Purisevic er kóngurinn í Ólafsvík.vísir/daníel
Ólsarar aftur upp?

Víkingur Ólafsvík spilaði í fyrsta sinn í Pepsi-deild karla fyrir tveimur árum en liðið féll í fyrstu tilraun á meðal þeirra bestu þrátt fyrir hetjulegt mót.

Ólsarar hafa verið besta lið 1. deildar karla í sumar og geta tryggt sér titilinn í 1. deildinni og um leið sæti í Pepsi-deildinni að ári með sigri í Grindavík í dag.

Grindvíkingar sjá Pepsi-deildarsætið enn í hyllingum, en liðið er með 30 stig í sjötta sæti, sjö stigum frá öðru sætinu. Ólsarar fá því ekkert gefins í dag.

Það yrði magnaður árangur hjá Ejub Purisevic að koma Ólsurum tvisvar sinnum upp á þremur árum, en það er fátt sem kemur í veg fyrir að Ólafsvíkingar verði aftur á meðal þeirra bestu.

Vísir verður með beina textalýsingu frá leiknum sem og leik Selfoss og Breiðabliks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×