Innlent

Tveir af hverjum tíu höfuð­borgar­búum tóku þátt í Pana­ma­mót­mælum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í vor gerði félagsvísindastofnun rannsókn meðal þúsund höfuðborgarbúa til að spyrja um þátttöku í mótmælum í apríl í kjölfar umfjallana um Panamaskjölin. Tuttugu prósent svarenda tóku þátt í mótmælunum.

„Þetta eru þrjátíu þúsund manns hafa mætt á einhverjum tímapunkti í apríl til þess að mótmæla,“ segir Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði. „Þáttakan í búsáhaldamótmælunum var í kringum 25 prósent þannig aðþetta fer að nálgast þáþátttöku. Þetta eru mjög stór mótmæli.“

Fólk var spurt um ástæðuna fyrir því að það tók þátt í mótmælunum.

„Þar var yfirgnæfandi meirihluti sem nefndi pólitíska spillingu og sérhagsmuni í pólitík, siðleysi í pólitík og vildu kosningar strax. Þannig að það eru þessi almennu lýðræðisatriði sem fólk nefnir fyrst af öllu. Í öðru sæti eru þessi mál sem komu upp í Panamaskjölunum, eins og mál fyrrverandi forsætisráðherra og svo framvegis.“ 

Líklegast er að mótmælandi sé vinstri sinnaður, hafi kosið stjórnarandstöðuflokkana og horft á Kastljósþáttinn um Panamaskjölin þriðja apríl.

„Það er líka áhugavert, sem virðist vera nýtt í mótmælaþátttöku, að efnahagsstaða fólks virðist vera að spá fyrir um þátttöku í mótmælum. Tekjulágir eru töluvert líklegri til að taka þátt í mótmælum en tekjuháir,“ segir Jón en bætir við að verkamenn og þeir sem hafa ekki störf séu þóólíklegastir til að mótmæla.

En hver er þá hinn dæmigerði mótmælandi? „Sérfræðingur með háskólapróf og lág laun,“ svarar Jón.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×