Innlent

Tveir af hverjum þremur sauðfjárbændum með mjög fátt fé

Sveinn Arnarsson skrifar
Nærri tvö af hverjum þremur sauðfjárbúum á Íslandi eru með færri en 200 ær á vetrarfóðrum. Aðeins fjögur prósent sauðfjárbúa eru með yfir 600 ær á fóðrum. Prófessor í hagfræði segir íslenska sauðfjárrækt að mestu leyti hobbívinnu sem sé þægileg með annarri vinnu.

Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Félags sauðfjárbænda, segir marga bændur vinna önnur störf meðfram sauðfjárrækt. „Í nýrri skýrslu Arion banka kemur fram að margir bændur séu í öðrum störfum svo sem ferðaþjónustu, í alls kyns verktakavinnu og svo framvegis. Einnig er auðvitað mikið enn um blönduð bú þar sem sauðfjárrækt er með kúabúskap eða hrossarækt svo eitthvað sé talið,“ segir Halldór.

Tölur um stærð sauðfjárbúa birtust í skýrslu Byggðastofnunar um staðsetningu sauðfjár á Íslandi. Kemur fram í úttekt Byggðastofnunar að flest fé er á Norðurlandi vestra og í Skagafirði. Einnig eru langflest stór sauðfjárbú á Norðvesturlandi.

Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir mjög erfitt að setja upp sauðfjárbú sem veiti manni fulla vinnu allan ársins hrings. „Álagspunktar í sauðfjárrækt eru fáir þannig að þetta er vinna sem hentar ágætlega með öðru. Það yrði erfitt að setja upp svo stórt bú að það veiti fulla vinnu 365 daga á ári. Svo stór bú myndi landið í kring svo ekki þola. Menn verða að horfast í augu við að á mörgum stöðum ber landið ekki sauðfjárrækt og er illa farið,“ segir Þórólfur.

Svavar sér smæð sauðfjárbúa ekki sem vandamál. „Það eru skýringar á þessu. Við vitum hins vegar að menn tala um að bú þurfi að vera með um 400 til 800 ær á vetrarfóðrum til að standa undir sér en það er að því gefnu að menn séu aðeins í sauðfjárrækt sem er nokkuð sjaldgæft á Íslandi,“ bætir Svavar við.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×