Skoðun

Tvær milljón áminningar um upprisu

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Áætlað er að Íslendingar borði um tvær milljónir páskaeggja núna um hátíðina. Það eru hátt í sex egg á mann; sum eru þegar horfin ofan í okkur en þeirra veglegustu verður margra leitað í fyrramálið, þegar páskadagur rennur upp.

Fyrir mörgum eru páskarnir fyrst og fremst kærkomið fimm daga frí þegar daginn er tekið að lengja og einkennast ekki sízt af útivist og súkkulaðiáti. Fyrir þá sem játa kristna trú – og það er yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar – hafa þeir samt dýpri merkingu.

Páskaeggin eiga einmitt að minna okkur á inntak páskanna. Egg eiga sér langa sögu sem tákn um frjósemi og endurfæðingu, löngu fyrir daga Krists. Í kristinni táknfræði minnir hins vegar brotin skurn eggsins á tóma gröf Krists að morgni páskadags. Að utanverðu minnir eggjaskurnin á kaldan steininn en innan í henni er nýtt líf, sem bíður þess að klekjast út – og á það minnir líka krúttlegi páskaunginn sem trónir á mörgum súkkulaðieggjunum sem verða snædd á morgun.

Páskarnir eru mikilvægasta trúarhátíð kristinna manna vegna þess að í páskaboðskapnum felst fyrirheit um eilíft líf. Eftir dapurlegar frásagnir undanfarinna daga af kvöl og pínu Krists verður fagnaðarboðskapurinn lesinn úr Markúsarguðspjalli í kirkjum landsins í fyrramálið:

„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.““

Þessi frásögn af upprisunni er öflugasti drifkrafturinn í trú hundraða milljóna kristinna manna um allan heim. Páskarnir eru sigurhátíð, þar sem við fögnum sigri lífsins á dauðanum, ljóssins yfir myrkrinu, þess góða á illum öflum.

Kristnir menn vænta ekki eingöngu eilífs lífs eftir enda jarðlífsins, þeir eiga líka fyrirheit um nýtt líf með Kristi hér í þessari jarðvist ef þeir fara að fordæmi hans.

Það er ágætt að hafa það í huga um leið og einu af þessum tveimur milljónum páskaeggja er sporðrennt – og þá má um leið gleðjast yfir því að það er ekki algengt að jafnmargar kaloríur flytji okkur eins ánægjulegan og fallegan boðskap.




Skoðun

Sjá meira


×