Innlent

Tuttugu prósenta hækkun launa á þriggja ára tímabili

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heildarlaun félaga í Starfsmannafélagi ríkisins í fullu starfi hafa hækkað um rúmlega 26 þúsund.
Heildarlaun félaga í Starfsmannafélagi ríkisins í fullu starfi hafa hækkað um rúmlega 26 þúsund. fréttablaðið/ernir
Heildarlaun félaga í Starfsmannafélagi Ríkisins í fullu starfi hafa hækkað um rúmlega 26 þúsund krónur frá því í janúar í fyrra, samkvæmt nýrri launakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir félagið. Þetta er rúmlega 7 prósenta hækkun. Meðaltal heildarlauna í könnuninni nú voru 398 þúsund en voru 372 þúsund fyrir ári og 352 þúsund fyrir tveimur árum fyrir fullt starf.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, hefur áhyggjur af hinum launalægstu. „Þetta eru lág laun sem við erum að horfa upp á. Fimm lægstu prósentin eru með ansi lág laun, um 245-250 þúsund. Það er vandamál hvað lægsti hópurinn hefur það alltaf skítt. Þótt menn reyni að hífa hann upp þá tekst það í ákveðinn tíma og svo eru aðrir farnir fram úr honum og hann situr einhvern veginn alltaf eftir. Ég á ekki skýringar eða ráð um það hvernig í ósköpunum á að takast á við þetta,“ segir Árni Stefán en bætir því við að hann vonist til að þeir sem eru í lægsta hópnum séu menn sem ekki hafi verið með mjög mikla fjölskylduábyrgð.

Árni Stefán Jónsson
Laun starfsmanna innan SFR hafa að meðaltali hækkað um um það bil 7 prósent síðastliðin þrjú ár, eða alls um 20 prósent. „Síðustu þrjú ár hefur okkur tekist betur upp prósentulega en oft áður. Þrátt fyrir allt hafa kjarasamningar síðustu ár lagt áherslu á lægstu launin sem skilar okkur eitthvað hærri prósentu.“ Árni Stefán segir þó að opinberir starfsmenn eigi langt í land með að ná starfsmönnum á almenna markaðnum. „Þarna er allt upp undir 17 prósenta munur sem almenni markaðurinn er hærri um og við höfum reynt að halda aðeins betur í við þá síðustu árin,“ segir hann.

Heildarlaun félaga hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 5 prósent frá því í könnuninni fyrir ári. Á þremur árum hafa þau hækkað um átján prósent.

„Áhyggjuefnið er að það kemur fram mikil óánægja með launin og það er meiri starfsmannavelta,“ segir Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. „Það er þetta sem sló mig mest,“ segir hann. Í könnuninni kemur fram að rúmlega sjö af hverjum tíu séu óánægðir með launakjör sín. Þetta hlutfall er heldur hærra en í síðustu könnunum. Meiri óánægja mælist á meðal kvenna en karla. Um 60 prósent félagsmanna í SFR eru óánægðir með launin, en ánægja með laun hefur verið svipuð síðustu fjögur ár. Karlar eru örlítið ánægðari með sín laun en konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×