Viðskipti innlent

Tuttugu milljarðar nettengdra tækja

Samúel Karl Ólason skrifar
„Nettengd tæki verða áður en langt um líður orðin fleiri en tölvur og snjalltæki, sem við höfum notað til þess að tengjast netinu hingað til.“
„Nettengd tæki verða áður en langt um líður orðin fleiri en tölvur og snjalltæki, sem við höfum notað til þess að tengjast netinu hingað til.“ Vísir/EPA
Snæbjörn Ingólfsson, sérfræðingur hjá Nýherja, segir að árið 2020 verði rúmlega tuttugu milljarðar tækja tengd internetinu. Þetta kom fram í máli Snæbjarnar á Tæknifæri, ráðstefnu Nýherja á Akureyri sem stendur yfir í dag.

hann segir að nú þegar hafi fyrsta kynslóð slíkra tækja litið dagsins ljós og bendir á snjallúr og heilsubönd. Í tilkynningu segir að úrvalið muni aukast hratt og verðið á tækjum þessum muni lækka. Áður en yfir líður muni tæknin ná yfir stærri þætti í daglegu lífi fólks. Bæði í vinnu og einkalífi.

Kaffivélar, ísskápar og bílar eru meðal tækja sem eru orðin eða verða nettengd.

„Nettengd tæki verða áður en langt um líður orðin fleiri en tölvur og snjalltæki, sem við höfum notað til þess að tengjast netinu hingað til. Þessi bylting, sem nefnd hefur verið „Internet of Things", mun ná til heilsu fólks, öryggi ýmis konar á heimilum og í borgum, fjármála og daglegrar skipulagningar fólks. Megin ávinningur þessarar tækni er aukin skilvirkni og lægri kostnaður á heimilum, vinnustöðum og samfélögum. Því er spáð að þessi þróun verði með sambærilegum hætti og snjalltækjavæðingin, en á fáeinum árum fjölgaði snjalltækjum úr 170 milljónum í einn milljarð tækja," segir Snæbjörn.

Hann bendir einnig á að Asíuríki séu nú í fararbroddi í netvæðingu tækja.

„Það er einkum fyrirtæki sem draga vagninn en gert er ráð fyrir að heimili og svo opinberir aðilar muni taka við kyndlinum. Þegar heimilin taka við sér þá mun skapast gríðarlegt magn af gögnum. Greiningaraðilum eins og Gartner og McKinsey, ber reyndar ekki alveg saman um fjölda nettengdra tækja á næstu árum en það má slá því föstu að þau verði rúmlega 20 milljarðar árið 2020. Það sem helst stendur þessari byltingu fyrir þrifum er sameiginlegur staðall og enn eru öryggismálin óljós."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×