Erlent

Tuttugu létust í árás í Suður-Súdan

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/ap
Í það minnsta 20 létu lífið og yfir 70 manns særðust í árás sem gerð var á bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan.

Sameinuðu þjóðirnar hafa víggirtar bækistöðvar í bænum Bor, í Suður-Súdan og yfir 5000 manns hafa leitað þar skjóls. Almennir borgarar hafast þar við innan um friðargæsluliða og aðra starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, í von um að halda lífi undir stöðugri ógn stríðsátaka. Ekkert bendir til annars en að árás hóps vígamanna á bækistöðvarnar hafi verið tilefnislaus.

Mennirnir klæddust borgaralegum fötum og sögðust vera mótmælendur, komnir til að skila undirskriftalista til yfirmanna á svæðinu. Þeim var því hleypt inn fyrir en hófu þá skothríð sem felldi í það minnsta 20 manns og særði yfir 70. Friðargæsluliðar urðu að grípa til vopna og tókst þeim loks að hrekja vígamennina á brott.

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hefur hátt í milljón manna hrakist á vergang í landinu frá því að stríðsátök hófust í landinu í desember síðastliðnum, á milli stuðningsmanna forsetans og fyrrum varaforsetans.

Um 250 þúsund til viðbótar hafa flúið til nágrannaríkja og búist er við að ástandið versni, enda hafa átök haldið áfram þrátt fyrir vopnahlé sem samið var um í janúar. Talið er að hátt í fimm milljónir búi við mikla neyð en hjálparstarf er erfitt vegna afskekktrar legu landsins og strjálbýlis.

Árásin í Bor hefur verið gagnrýnd harðlega, þar sem bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna eigi að vera friðhelgar.

Öryggi hefur verið hert í kjölfar árásarinnar og yfirmenn hafa sent út skýr skilaboð um að hugsanlegir árásarmenn verði ekki teknir neinum vettlingatökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×