Viðskipti innlent

Tuttugu greiða samtals 2,5 milljarða í skatta

Sæunn Gísladóttir skrifar
peningar
peningar vísir/valgeir gíslason
Árni Harðarson, viðskiptafélagi Róberts Wessman, forstjóra og stofnanda Alvogen, greiddi mest í skatt í fyrra, eða 265 milljónir króna og er því skattakóngur ársins. Christ­opher M. Perrin, stjórnarformaður ALMC, greiddi næstmest eða 200 milljónir og Jakob Már Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri ALMC, kom þar á eftir með 193 milljónir í skatt.

Skattakóngur ársins greiðir mun minna en skattakóngur síðasta árs, útgerðarmaðurinn Þórður Rafn Sigurðsson, sem greiddi alls tæplega 672 milljónir króna í skatt á árinu 2014. 

Samtals greiddu tuttugu hæstu skattgreiðendur 2,5 milljarða árið 2015, samanborið við 3,2 milljarða árið 2014. Á skattgrunnskrá 2016 voru 277.606 framteljendur og hafa þeir aldrei verið jafn margir.

Listi Ríkisskattstjóra yfir tuttugu hæstu gjaldendur breytist töluvert milli ára en einungis fjögur nöfn má finna á listanum sem voru á honum í fyrra. Það eru Árni Harðarson, Kári Stefánsson, Kristján V. Vilhelmsson og Grímur Sæmundsen.

Fjórir af tíu hæstu greiðendum opinberra gjalda hér á landi á þessu ári eru lykilstjórnendur ALMC sem áður hét Straumur/Burðarás. Ástæðan er milljarðabónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækisins. Bónusarnir áttu að hvetja stjórnendurna til að hámarka virði eigna félagsins.

Stjórnendur í lyfjageiranum eru einnig mjög áberandi á listanum, má þar nefna Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur, fyrrverandi forstjóra Actavis á Íslandi, og Val Ragnarsson, forstjóra Medis

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júlí 2016






Fleiri fréttir

Sjá meira


×