Innlent

Tuttugu fjölskyldur vilja taka fylgdarlaus börn að sér

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Um tuttugu fjölskyldur hafa sett sig í samband við Barnaverndarstofu undanfarin sólarhring og lýst yfir áhuga á taka fylgdarlaus flóttabörn í fóstur eða vistun á heimili sínu. Forstjóri Barnaverndarstofu segir mikilvægt að börn í slíkri stöðu búi við öryggi á meðan mál þeirra séu til umfjöllunar.

Fyrr í mánuðinum greindi Stöð 2 frá því að yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðunesjum teldi að yfirvöld á Íslandi þyrftu að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart mansalsmálum þar sem börn koma við sögu. Vegalaus börn koma reglulega hingað til lands, en gera má ráð fyrir að þeim fari fjölgandi þar sem fordæmalaus fjölda flóttabarna er nú á vergangi í Evrópu.

Þrjú fylgdarlaus börn á aldrinum 14 til 15 ára komu hingað til lands í desember, eitt frá Albaníu og tvö frá Sýrlandi. Börnin hafa dvalið á fjölskyldugangi móttökumiðstöðvar fyrir hælisleitendur í Hafnarfirði frá því í byrjun árs. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir viðeigandi úrræði skorta fyrir börn í þessari stöðu.

„Það hefur nú komið í ljós að það eru svona vissir hnökrar sem við þurfum að lagfæra strax. Ég held að okkur sé ekkert að vandbúnaði að gera þetta sómasamlega,“ segir Bragi.

Barnaverndarstofa auglýsti um helgina eftir fósturfjölskyldum fyrir vegalaus börn, tímabundið eða til lengri tíma.

„Fyrstu viðbrögð við þeirri auglýsingu voru mjög góð. Það eru á annan tug fólks sem hefur nú þegar haft samband,“ segir Bragi. 

Telur Bragi best að þau börn sem komi hingað til lands fari strax í fóstur á meðan verið sé að leysa úr þeirra málum. Það sé mun vænlegra en að þau dvelji á móttökumiðstöð með fullorðnum, eða í fangelsi, eins og dæmi eru um.

„Það er mun hagfelldara fyrir börnin að búa í fjölskylduumhverfi þar sem þau fá tilfinningalega næringu og hægt er að skynja betur þeirra líðan og viðhorf. Við þurfum hins vegar að veita þessu fólk sem tekur slík verkefni að sér fullnægjandi undirbúning með fræðslu og þjálfun. Ég vona að við  getum komið upp til framtíðarkerfi sem virkar vel í svona tilfellum,“ segir Bragi Guðbrandsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×