Erlent

Tuttugu drepnir í loftárás í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Sádar standa fyrir loftárásunum sem beinast gegn Hútum sem hafa meðal annars náð höfuðborginni Sanaa á sitt vald.
Sádar standa fyrir loftárásunum sem beinast gegn Hútum sem hafa meðal annars náð höfuðborginni Sanaa á sitt vald. Vísir/AFP
Tuttugu manns féllu í loftárás sádi-arabíska hersins á bílalest uppreisnarsveita Húta í Jemen í morgun.

Á vef NRK segir að skotið hafi verið á bílalestina þegar hún var á leið frá Al-Anad herstöðinni í útjaðri Adenborgar í vesturhluta landsins. Tveir skriðdrekar og fjórir brynvarðir bílar voru í bílalestinni.

Sádar standa fyrir loftárásunum sem beinast gegn Hútum sem hafa meðal annars náð höfuðborginni Sanaa á sitt vald.

Sókn Sáda nýtur stuðnings rúmlega tíu ríkja, þar á meðal Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Barein, Kúveit og Katar. Stjórnarherir Egyptalands, Jórdaníu og Súdan taka einnig þátt í sókninni, auk þess að her Marokkó hefur boðið fram aðstoð.

Bandaríkjastjórn segist hafa aðstoðað með því að veita Sádum upplýsingar og hernaðarráðgjöf. Tyrkir segjast jafnframt styðja sóknina.

Íransstjórn hefur hins vegar farið fram á að loftárásir verði stöðvaðar þegar í stað, auk þess að Kínastjórn hefur lýst yfir áhyggjum og hvatt til viðræðna milli deiluaðila. Sameinuðu þjóðarnir hafa sömuleiðis farið fram á tafarlaust vopnahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×