Erlent

Tusk nú líklegasti arftaki van Rompuy

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Tusk tók við embætti forsætisráðherra Póllands árið 2007.
Donald Tusk tók við embætti forsætisráðherra Póllands árið 2007. Vísir/AFP
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, er nú talinn líklegastur til að hreppa embætti forseta leiðtogaráðs ESB.

Leiðtogar aðildarríkja ESB koma saman til fundar á laugardaginn þar sem þeir munu koma sér saman um arftaka Hermans van Rompuy, ásamt arftaka Catherine Ashton í stóli utanríkismálastjóra sambandsins.

Verði Tusk fyrir valinu yrði það mikill sigur fyrir aðildarríki í austurhluta álfunnar, sem gengu flest í sambandið fyrir tíu árum síðan.

Tusk er Evrópusinni, hægra megin við miðju, en hefur neitað því opinberlega að vera einn af þeim sem til greina kæmi í stöðuna.

Heimildarmenn Reuters sögðu að van Rompuy myndi varpa fram nafni Tusk sem hluta af heildarpakka í símtölum sínum við leiðtogum fyrir fundinn. Síðustu mánuði hefur nafn danska forsætisráðherrans Helle Thorning-Schmidt oftast verið nefnt í tengslum við stöðuna.

Náist samkomulag um Tusk er líklegast að Federica Mogherini, utanríkisráðherra Ítalíu, muni taka við stöðu Ashton í stóli utanríkismálastjóra sambandsins.

Í frétt Euractiv segir að Valdis Dombrovskis, fyrrum forsætisráðherra Lettlands, sé talinn vera álitlegasti varakosturinn, náist ekki samkomulag um Tusk, eða þá að hann ákveði að þiggja ekki stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×