Erlent

Túnisforseti lýsir yfir þrjátíu daga neyðarástandi

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengingin fyrr í dag varð á stoppistöð þar sem liðsmenn lífvarðasveitarinnar eru sóttir.
Sprengingin fyrr í dag varð á stoppistöð þar sem liðsmenn lífvarðasveitarinnar eru sóttir. Vísir/AFP
Beji Caid Essebsi Túnisforseti hefur lýst yfir þrjátíu daga neyðarástandi í landinu eftir að fimmtán manns féllu í sprengjuárás í Túnisborg fyrr í dag. Þá hefur útgöngubanni verið komið á í höfuðborginni.

Í frétt BBC segir að sprengjuárásin hafi verið gerð á rútu sem flutti liðsmenn lífvarðasveitar forsetans í miðborg Túnisborgar.

Enginn hópur hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni. Íslamskir öfgamenn hafa nokkrum sinnum látið til skarar skríða í landinu það sem af er ári, þar á meðal í ferðamannabænum Sousse þar sem byssumaður skaut 38 manns til bana í júní.

Fjölmargir Túnisbúar hafa lagt leið sína til Íraks og Sýrlands síðustu mánuði og gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS. Túnísk yfirvöld áætla að um þrjú þúsund túnískir séu nú í röðum vígasveita ISIS.

Sprengingin fyrr í dag varð á stoppistöð þar sem liðsmenn lífvarðasveitarinnar eru sóttir, skammt frá Hotel du Luc á breiðgötu sem kennd er við Múhammeð fimmta.

Franska blaðið Le Figaro greinir frá því að sést hafi til manns koma sprengju fyrir fyrir utan rútuna og svo hlaupa af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×