Innlent

Tunglið verður appelsínugult á laugardag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá upphafi tunglmyrkva í mars 2007 þegar appelsínuguli liturinn sást frá Íslandi.
Frá upphafi tunglmyrkva í mars 2007 þegar appelsínuguli liturinn sást frá Íslandi.
Tunglmyrkvi verður á Íslandi í ljósaskiptunum síðdegis á laugardag, þann 10. desember. Hann mun sjást sem almyrkvi á austanverðu landinu en sem deildarmyrkvi vestanlands, svo fremi að ekki verði skýjað.

Vefsíða Almanaks Háskóla Íslands segir að almyrkvinn hefjist þegar enn er dagsbirta á Íslandi og því sést ekki almyrkvað tungl frá Reykjavík en deildarmyrkvi verður sýnilegur þaðan þegar dimmir. Austast á landinu sést tunglið almyrkvað þegar það kemur upp fyrir sjóndeildarhringinn undir lok almyrkvans.

Á Stjörnufræðivefnum segir að Austfirðingar verði einu og heppnustu íbúar landsins sem sjá rauðu almyrkvuðu tungli bregða fyrir. Tunglið rísi nefnilega austast á landinu skömmu áður en almyrkva lýkur klukkan 14:58. Annars staðar á landinu rís tunglið deildarmyrkvað (klukkan 15:28 í Reykjavík) en því stigi myrkvans lýkur klukkan 16:18, og er vitnað til Almanaks Háskólans fyrir árið 2011.

Tunglmyrkvar eru með fallegustu stjarnfræðilegu sjónarspilum sem sjást með berum augum, að því er segir á Stjörnufræðivefnum. Þótt fæstir landsmenn sjái rautt almyrkvað tungl á laugardag verði engu að síður tignarlegt að fylgjast með deildarmyrkvanum. Þegar tunglið rísi verði upplýsti hluti þess appelsíngulur með dökkan jarðskugga yfir hægri helmingnum.

Tunglmyrkvar sjást frá hálfri jörðinni í senn, það er að segja þeim helmingi jarðar sem snýr að tungli þegar myrkvinn verður. Tunglmyrkvinn á laugardag sést best frá Asíu og Ástralíu en frá Evrópu sést hann að hluta.

Almyrkvar á tungli sjást að meðaltali á tveggja til þriggja ára fresti frá hverjum stað á jörðinni. Stutt er þó frá síðasta tunglmyrkva á Íslandi en hann var þann 21. desember í fyrra og sást í 74 mínútur. Næst sést almyrkvi á tungli frá öllu Íslandi þann 28. september árið 2015.

 



 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×