Viðskipti innlent

Túnfiskur frá Íslandi seldur í Tókýó

Jakob Bjarnar skrifar
Túnfiskur er eftirsóttur í Japan.
Túnfiskur er eftirsóttur í Japan. VÍSIR/AFP
Túnfiskur frá Íslandi var seldur á fiskmarkaði í Tókýó í síðustu viku og var hver fiskur seldur á 680 þúsund krónur að meðaltali, en meðalvigt fiskanna eins og þeir voru seldir, var 132 kíló.

Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun. Fyrir hvert kíló fengust því ríflega fimm þúsund krónur en vonir standa til að en hærra verð fáist fyrir túnfisk þegar líður á haustið. Í gær var 14 túnfiskum landað í Grindavík í viðbót við þá 11 sem áður höfðu veiðst.

Jóhann Helgason er í framleiðslustjórn hjá Vísi og hann segir að öll meðferð verði að vera til fyrirmyndar í ferlinu sem ekki er flókið hvað landvinnsluna varðar. Túnfiskurinn er hausaður og svo beint út í flugvél og út. Að sögn Jóhanns eru menn við veiðar sunnan Eyja og er um 12 tíma stím á miðin.

Stýrimaður á Jóhönnu er Haraldur Einarsson: „Þetta eru línuveiðar með flotlínu sem er um 15 til 20 faðma frá yfirborðinu," segir Haraldur en á línuna festa þeir smokkfisk.

Þeir kasta einni línu út en á henni eru 950 krókar. Stundum gerist það að margir fiskar hlaupa á línuna í einu og síðast fengu þeir mest 7 fiska.

„Það gengur mikið á. Það verður að þreyta þá og það getur tekið allt að hálftíma. Taumarnir eru losaðir af og ef það er fiskur á línunni verður auðvitað allt vitlaust. Þá er hann settur á þreyttara sem er eins og stórt hjól á veiðistöng. Hann snuðar hjólið þannig að maður verður að vanda sig við að slíta ekki.

Þetta er ægilega kraftmikill fiskur. Þá eru settir í hann þrjú spjót og á endanum á því er svona krókur, svona agnald, sem er rekið í hausinn á þeim. Spjótið losnar frá en agnaldið verður eftir með spottum í. Þá er öryggi, þá er hann fastur," segir Haraldur Einarsson

Þá er fiskurinn hífður um borð og settur krókur, sem er kallaður ífæra, í gegnum kjaftinn á honum.

30 tonnum af túnfisk er úthlutað í kvóta, þar af fær Vísir 25, auk þess sem gert er ráð fyrir meðafla á makrílveiðum og svo hugsanlega á sjóstöng.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×