Erlent

Tugir handteknir en mótmælin rólegri en áður

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmæli hafa nú staðið yfir í Ferguson í Missouri tíu nætur í röð.
Mótmæli hafa nú staðið yfir í Ferguson í Missouri tíu nætur í röð. Vísir/AP
Lögregla í Ferguson í Missouri handtók 47 manns í mótmælum næturinnar sem þó voru rólegri en mótmæli síðustu daga þar sem til harðra átaka hefur komið milli mótmælenda og lögreglu.

Von er á Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, til Ferguson síðar í dag en alríkisyfirvöld reyna nú að leggja sitt að mörkum til að róa ástandið. Mikil mótmæli hafa blossað upp í bænum tíu nætur í röð, en Ferguson er í útjaðri St. Louis-borgar.

Ellefu dagar eru nú liðnir frá því táningurinn Michael Brown var skotinn til bana af lögreglu í bænum og hefur andrúmsloftið verið þrungið spennu æ síðan. Krufning hefur leitt í ljós að Brown hafi verið skotinn sex sinnum af löngu færi, meðal annars í höfuðið.

Í frétt BBC kemur fram að talsmaður yfirvalda segi mótmæli næturinnar hafa byrjað friðsamlega en þegar leið á nóttina hafi nokkrir mótmælenda kastað flöskum og hlandi í átt að lögreglumönnum.

Ekki hafi þó verið skotið á lögreglu og þá hafi lögregla ekki þurft að beita táragasi. Segir talsmaðurinn að eldra fólk, sjálfboðaliðar, aðgerðasinnar og kirkjunnar menn hafa farið út á götur og rætt við mótmælendur. Hafi þeir hvatt til friðsamlegri mótmæla sem hafi skilað árangri.


Tengdar fréttir

Lögreglan beitti táragasi í Ferguson

Lögreglan í bandaríska bænum Ferguson í Missouri beitti táragasi gegn mótmælendum í miklum átökum sem geisuðu í borginni í nótt þrátt fyrir að þar sé í gildi útgöngubann, aðra nóttina í röð.

Ku Klux Klan á leið til Ferguson

Liðsmenn samtakanna hyggjast „verja verslanir í eigu hvítra“ í þeim mótmælum sem nú hafa staðið yfir síðustu daga.

Reiðin kraumar enn í Ferguson

Lögreglumenn í bænum Ferguson í Missouri beittu táragasi enn á ný gegn mótmælendum í bænum í nótt en þar hefur allt verið á suðupunkti frá því óvopnaður unglingspiltur var skotinn til bana af lögreglumanni.

Ólga og óeirðir í Ferguson

Mikil ólga hefur verið í bænum Ferguson í Missouri allt frá því lögreglumaður skaut átján ára pilt um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×