Innlent

Tugir ferðamanna fastir á ísjaka sem rak út á Jökulsárlón

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Börn á hálum ís við Jökulsárlón í febrúar í fyrra. Mynd tengist frétt ekki beint.
Börn á hálum ís við Jökulsárlón í febrúar í fyrra. Mynd tengist frétt ekki beint. mynd/owen hunt
Allt að fimmtíu ferðamenn eru nú fastir á ísjaka á Jökulsárláni. Björgunarfélag Hornafjarðar hefur verið kallað að lóninu.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu vegna málsins eru á bilinu fjörutíu til fimmtíu ferðamenn á jaka sem rekið hefur frá landi, samkvæmt fyrstu fréttum af vettvangi.

Landsbjörg segir að ekki sé talið að fólkið sé í bráðri hættu sem stendur. Björgunarsveitir voru ekki komnar á staðinn klukkan tuttugu mínútur í fjögur en voru þá væntanlegar.

Uppfært klukkan 16:03

Elín Freyja Hauksdóttir, formaður björgunarfélagsins, var stödd í Hlíðarfjalli þegar blaðamaður náði af henni tali. Hún hafði heyrt í sínu fólki í sveitinni sem væri lagt af stað.

Henni skildist á sínu fólki að ekki væri um að ræða strandaglópa heldur væri lónið svo ísilagt að fólk gengi út á ísinn til að virða hann fyrir sér.

Uppfært klukkan 16:21

Ferðamennirnir eru allir komnir í land. Þeir höfðu ætlað sér að skoða selaþyrpingu í um 200-300 metra fjarlægð frá landi. Engum varð meint af.

Friðrik Jónas Friðriksson, formaður svæðisstjórnar Björgunarfélags Hornafjarðar, segir fleiri hundruð manns hafa verið á svæðinu í rjómablíðu. Hann skilji ferðamanninn að mörgu leyti en hann var enn að benda fólki á að halda sig frá ísnum þegar fréttamaður náði í hann. Nánar um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×