Erlent

Tsarnaev brast í grát í réttarsalnum

Atli Ísleifsson skrifar
Kviðdómur mun brátt ákvarða hvort Tsarnaev skuli dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi.
Kviðdómur mun brátt ákvarða hvort Tsarnaev skuli dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi. Vísir/AFP
Dzhokhar Tsarnaev, sem dómstóll hefur fundið sekan af því að hafa borið ábyrgð á sprengingunum í Boston-maraþoninu 2013, brast í grát í réttarsal í morgun.

Tsarnaev brotnaði saman þegar öldruð frænka hans bar vitni, en kviðdómur mun senn ákvarða hvort hann skuli dæmdur til dauða eða í lífstíðarfangelsi. Hinn 21 árs Tsarnaev hefur ekki sýnt miklar tilfinningar í réttarhöldunum.

Þrír létust og 264 særðust í sprengingunum sem Tsarnaev skipulagði í félagi við Tamerlan bróður sinn.

Í frétt BBC kemur fram að Patimat Suleimanova, frænka Tsarnaev, hafi mikið grátið í vitnastúkunni og einungis getað svarað örfáaum grundvallarspurningum um frænda sinn. Þegar dómarinn George O'Toole yngri bað Suleimanova um að fara úr vitnastúkunni til að jafna sig þurrkaði Tsarnaev tár af hvarmi.

Verjendur Tsarnaev segja hann hafa tekið þátt í undirbúningi árásarinnar en að Tamerlan hafi verið höfuðpaurinn.

Tamerlan Tsarnaev létst nokkrum dögum eftir árásina í kjölfar skotbardaga við lögreglumenn.

Fimm fjölskyldumeðlimir Tsarnaev-bræðranna báru vitni í dag – þrír frændur og tvær frænkur. Sögðust þeir ekki hafa séð Tsarnaev síðan hann flutti frá Téténíu til Bandaríkjanna þegar hann var átta ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×