Íslenski boltinn

Tryggvi Hrafn sá óvæntasti í íslenska hópnum: „Alveg geggjað símtal“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson er yngsti leikmaðurinn í íslenska landsliðshópnum sem er á leiðinni til Las Vegas þar sem liðið mætir Bandaríkjunum í vináttulandsleik.

Tryggvi Hrafn Haraldsson er tvítugur en hann er sonur landsliðsmannanna Haraldar Ingólfssonar (20 A-landsleikir, 1 mark) og Jónínu Víglundsdóttur (11 A-landsleikir, 2 mörk).

Tryggvi Hrafn var gestur í Akraborginni í gær og fór aðeins yfir hvernig honum varð við þegar hann frétti af þessu.

„Þetta kom á óvart og sennilega kom þetta mörgum á óvart. Ég vissi í rauninni ekki að það væri einhver verkefni á leiðinni,“ sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson.

„Heimir hringdi um helgina og sagði að hann ætlaði að taka mig með til Bandaríkjanna. Það var alveg geggjað símtal,“ sagði Tryggvi Hrafn en hvað sögðu foreldrar hans?

„Þau voru hissa líka en þetta er bara gaman fyrir alla,“ sagði Tryggvi en hann hefur ekki verið hræddur um að einhver væri að gera grín í honum: „Nei, þetta var ekki svo slæmt,“ sagði Tryggvi.

„Þetta kom á óvart en það þýðir ekkert að ég ætli að vera einhver farþegi í þessu. Ég ætla að sýna hvað ég get og nýta þetta tækifæri,“ sagði Tryggvi.

Það vekur athygli að hann hefur ekki spilað með yngri landsliðinum en er núna kominn í A-landsliðið. Hvernig stendur á því?

„Ég get í rauninni ekki svarað því. Ég var meiddur þegar ég var gjaldgengur í undir 19 ára liðið. Það var ekki hægt að velja mig þar. Það eru 21 árs verkefni framundan og ég er að vonast til að vera valinn í það,“ sagði Tryggvi. Hann ætlar að nýta sér þennan meðbyr.

„Það er mikil hvatning að vera valinn í svona hóp og ég nýti mér það,“ sagði Tryggvi en það má heyra allt spjallið í spilaranum hér fyrir ofan. 


Tengdar fréttir

Kári: Byrjunin á góðu ævintýri

Landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason er genginn í raðir kýpverska liðsins Omonoia Nicosia frá Malmö í Svíþjóð. Kári átti gott tímabil með Malmö er liðið varð meistari í fyrra. Þrátt fyrir það var Malmö tilbúið að láta hann fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×