Körfubolti

Tryggvi dottinn út af nokkrum listum en tveir segja að hann endi hjá 76ers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu.
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Tryggvi Snær Hlinason fær að vita það í kvöld hvort hann verði valinn í nýliðavali NBA-deildarinnar en íslenskir körfuboltaáhugamenn bíða margir spenntir eftir niðurstöðu kvöldsins.

Tryggvi Snær hefur verið að flakka á milli NBA-liða á síðustu dögum þar sem hann hefur fengið að æfa og sýna sig. Hann hefur verið hjá liðum eins og Phoenix Suns, Denver Nuggets, Dallas Mavericks, Oklahoma City Thunder svo að einhver séu nefnd.

Hann verður síðan í New York í kvöld þar sem nýliðavalið fer fram en sextíu strákar verða þá valdir inn í NBA-deildina.

Tryggvi Snær Hlinason hefur verið inni á mörgum spálistum í aðdraganda nýliðavalsins en staða hans hefur versnað aðeins á síðustu dögum ef marka má þá. Tryggvi hefur nefnilega dottið út af nokkrum þessara lista.

Okkar maður er hinsvegar inni á tveimur af aðallistunum og á þeim báðum er spáð því að hann endi hjá liði Philadelphia 76ers.

Sports Illustrated spáir því að Tryggvi verði valinn númer 56 af Philadelphia 76ers.

Net Scouts síðan er hinsvegar á því að Philadelphia 76ers noti valrétt númer 60 til að taka íslenska miðherjann.

Hér má sjá helstu spálistana á sérstakri síðu á heimasíðu NBA-deildarinnar en margir þessara lista telja þó aðeins 30 leikmenn eða bara fyrri umferð nýliðavalsins.

Verði Tryggvi valinn þá verður hann valinn í annarri umferðinni.Hann sjálfur er bjartsýnn sem lofar góðu en allt kemur þetta í ljós seint í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×