Innlent

Tryggja þurfi eftirfylgni í heimilisofbeldismálum

viktoría hermannsdóttir skrifar
Frumvarpið felur jafnframt í sér að lögregla hafi heimild til þess að kæra fyrir hönd þolenda þegar brotið er gegn nálgunarbanni. Það segir Vilhjálmur mikilvægt fyrir lögreglu.
Frumvarpið felur jafnframt í sér að lögregla hafi heimild til þess að kæra fyrir hönd þolenda þegar brotið er gegn nálgunarbanni. Það segir Vilhjálmur mikilvægt fyrir lögreglu. Fréttablaðið/Teitur
Breytt verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum felur meðal annars í sér breytta skráningu og breytta nálgun þegar komið er á heimili þar sem tilkynnt hefur verið um ofbeldi.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að í Reykjavík hefði tilkynningum vegna heimilisofbeldis fjölgað um helming frá því sérstakt átaksverkefni hófst í janúar. Hins vegar virðist vanta meiri eftirfylgni.

Vilhjálmur Árnason Fréttablaðið/Anton
Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um breytingu á almennum hegningarlögum, sem fjallar um heimilisofbeldi og nálgunarbann. Fyrsti flutningsmaður er Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki. Í fyrra voru tilkynningar vegna heimilisofbeldis 290 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Með frumvarpinu er lagt til refsilagaákvæði sem taki til heimilisofbeldis. Tilgangurinn er að draga úr tíðni heimilisofbeldis, vernda þolendur og taka á vanda gerenda.

Vilhjálmur segir mikilvægt að þetta verði sett í lög. Nú þurfi að sanna hverja líkamsárás fyrir sig og því sé í raun ekki gerður greinarmunur á langvinnu heimilisofbeldi og einu skipti.

Þegar lögin voru endurskoðuð fyrir um áratug segir Vilhjálmur að bætt hafi verið inn ákvæði í hegningarlögin sem sneri að því að ef tengsl væru náin væri hægt að þyngja refsinguna. Það sé ekki nóg.

„Þegar það er horft til baka á dóma í þessum málum þá sýnir það sig að það hefur ekki verið að skila sér,“ segir Vilhjálmur.

Tilraunaverkefni lögreglunnar á Suðurnesjum gegn heimilisofbeldi sýndi sig í auknum tilkynningum og vitundarvakningu.

Vilhjálmur segir þó hafa komið skýrt fram að eftirfylgni vantaði. Þess vegna þurfi að breyta lögum þannig að hægt sé að dæma sérstaklega fyrir þetta.

Þá felur frumvarpið í sér að lögreglan fái heimild til að ákæra fyrir brot gegn nálgunarbanni. Nú er það þannig í lögum að aðeins er hægt að kæra vilji þolandi það.

„Nálgunarbann er stór þáttur í því að takast á við heimilisofbeldi. Í dag getur þolandi einungis kært þann sem brýtur gegn nálgunarbanni. Lögregla getur ekkert gert nema þolandi samþykki en oft þora þeir ekki að kæra af ótta við ofbeldismanninn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×