Lífið

Tryggingafélag hélt að Perla væri tík

Samúel Karl Ólason skrifar
Perla Magnúsdóttir og Guðmundur Luther Hallgrímsson, kærasti hennar.
Perla Magnúsdóttir og Guðmundur Luther Hallgrímsson, kærasti hennar.
Starfsmaður tryggingafélagsins Sjóvá hélt nýverið að Perla Magnúsdóttir væri hundur. Kærasti Perlu, Guðmundur Luther Hallgrímsson, hafði verið í samskiptum við starfsmenn Sjóvá varðandi tryggingamál og vildi meðal annars tryggja hana.

Svarið sem að Guðmundur fékk var: „Hvernig hundur er Perla og hversu hátt viljið þið líftryggja hana?“

Perla hefur mikinn húmor fyrir misskilningnum og deildi sögunni á Facebook á fimmtudaginn. Færsla hennar hefur notið mikilla vinsælda.

Aðspurð hvort að Perla lendi oft í því að fólk haldi að hún sé hundur segir hún svo ekki vera.

„Ég er reyndar einstaklega vingjarnleg við fólk og mjög góður hundur,“ segir hún hlæjandi þegar Vísir náði af henni tali.

„Nei, ég hef nú ekki lent í þessu áður, en það eru hins vegar ekkert margar á mínum aldri sem að heita þessu nafni. Svo eru örugglega þúsund hundar og hestar, sem að heita þetta.“

Perla hefur mikinn húmor fyrir þessu og segir að líklega hefði hún orðið best tryggði hundur Íslands. Líf- og sjúkratryggð og í Fjölskylduvernd 2.

„Ég er búin að vera að taka við hundagríni frá vinum og samstarfsaðilum nánast stanslaust síðustu daga.“ Samstarfsmenn hennar hafa verið að gelta á hana og biðja hana um að sýna listir sínar.

„Þetta er búið að falla einstaklega vel í kramið hjá fólki.“

Starfsmenn Sjóvá hafa einnig húmor fyrir misskilninginum og hafa deilt færslu Perlu.

„Mér finnst gaman þegar fólk hefur góðan húmor. Þetta eru mjög fyndin mistök og það þarf ekkert að taka þeim alvarlega,“ segir Perla. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×