Viðskipti erlent

Tryggðin minnkar hjá Apple

Sæunn Gísladóttir skrifar
iPhone eigendur eru líklegri til að fá sér iPhone 7 í Evrópu en í Kína.
iPhone eigendur eru líklegri til að fá sér iPhone 7 í Evrópu en í Kína.
Eigendur iPhone-síma virðast vera síður tryggir Apple en áður ef marka má rannsókn UBS-greiningaraðilanna Stevens Milun­ovich og Benjamins Wilson.

Business Insider greinir frá því að smám saman virðist notendur iPhone vera að færa sig yfir til annarra síma. Í Bandaríkjunum og Evrópu eru notendur iPhone frekar tryggir Apple, en í austri, sér í lagi í Kína, er fjöldi notenda farinn að skipta út símanum. 

Árið 2010 héldu 95 prósent eigenda iPhone sig við merkið þegar þeir keyptu nýjan síma en árið 2016 er þetta hlutfall orðið um 75 prósent. Hlutfallið er þó ennþá hærra en hjá Android og Samsung. Samsung-símaeigendur virðast þó verða tryggari með tímanum, ef litið er fram hjá síðasta fjórðungi þegar sprenging í Galaxy Note 7 hafði áhrif.

Notendur iPhone í Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan og Þýskalandi halda enn fast í símana en í Kína hefur áróður gegn Apple haft þau áhrif að einungis 55 prósent fengu sér iPhone aftur á síðasta ársfjórðungi, samanborið við rúmlega 80 prósent á sama ársfjórðungi fyrir tveimur árum.

Sala hjá Apple hefur dregist saman um 30 prósent milli ára í Kína. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×