Erlent

Trump þakkar Twitter fyrir forsetastólinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur ólíklegt að hann væri forseti Bandaríkjanna ef ekki væri fyrir samfélagsmiðilinn Twitter sem hann notar gjarnan til að koma sínum hjartans málum á framfæri.

„Ég efast um að ég væri hér ef það væri ekki fyrir samfélagsmiðla, ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Trump í viðtali við Sunday Morning Futures á sjónvarpstöðinni Fox News,

Trump er með 41 milljón fylgjanda á Twitter og notar miðilinn óspart, ýmist til þess að tilkynna um stefnu sína sem forseti eða skjóta á þá og það sem honum mislíkar.

Margir hafa gagnrýnt hann fyrir frjálslega notkun hans á samfélagsmiðlinum og segja hana ekki hæfa forseta Bandaríkjanna. Trump segir þó að með Twitter og öðrum samfélagsmiðlum geti hann komið sínum skoðunum á framfæri á fljótlegan og þægilegan hátt.

„Að tísta er eins og að nota ritvél. Þegar ég set eitthvað í loftið setjið þið strax í sjónvarpið,“ sagði Trump við þáttastjórnendur þáttarins.

Þá segir Trump að með Twitter geti hann komið sér hjá því að koma skilaboðum sínum á framfæri í gegnum fjölmiðla sem hann segir ósanngjarna í sinn garð.

„Þegar einhver segir eitthvað um mig get ég séð um það sjálfur. Ef það væri á hinn veginn gæti ég komið mínum sjónarmiðum á framfæri,“ sagði Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×