Erlent

Trump staðfestir tilnefningu Rex Tillerson

Samúel Karl Ólason skrifar
Rex Tillerson, framkvæmdastjóri ExxonMobil olíufyrirtækisins.
Rex Tillerson, framkvæmdastjóri ExxonMobil olíufyrirtækisins. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, ætlar að tilnefna Rex Tillerson, framkvæmdastjóra olíufyrirtækisins ExxonMobil, sem utanríkisráðherra. Öldungadeild þings Bandaríkjanna þarf að staðfesta tilnefninguna og gæti það reynst Trump erfitt að ná því í gegn.

Tilnefning Tillerson þykir vera til marks um vilja Trump til að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Þrátt fyrir að Tillerson hafi enga reynslu af stjórnmálum hefur hann lengi átt í nánum samskiptum við heimsleiðtoga víða um heim.

„Þrautseigja hans, víðtæk reynsla og djúpur skilningur á alþjóðastjórnmálum gera hann að frábærum valkosti til embættis utanríkisráðherra,“ sagði Trump í tilkynningu.

Eins og áður hefur komið fram er ekki víst að tilnefningin verði staðfest af þinginu. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir áhyggjum vegna þeirra ára sem Tillerson hefur starfað í Rússlandi og Mið-Austurlöndum. Tillerson hefur átt í samstarfi við Vladimir Putin, forseta Rússlands, og hefur jafnvel fengið vináttuorðu Kremlin.

Repúblikanar eiga 52 þingmenn í öldungadeildinni og demókratar 48. Minnst 50 atkvæði þarf til að tilnefningin verði staðfest. 

Þingmenn eins og John McCain og Marco Rubio hafa þegar lýst yfir áhyggjum sínum vegna tengsla Tillerson við Putin. Þar að auki hafa Lindsey OGraham og James Lankford lýst yfir áhyggjum.

Gjá hefur einnig myndast á milli Trump og þingmanna Repúblikana vegna viðhorfs hans til yfirlýsingarinnar um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×