Erlent

Trump sendi Íran tóninn í hástöfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump með þjóðaröryggisráðgjafa sínum John Bolton sem hefur meðal annars talað fyrir stríði við Íran.
Donald Trump með þjóðaröryggisráðgjafa sínum John Bolton sem hefur meðal annars talað fyrir stríði við Íran. Vísir/afp
Forseti Bandaríkjanna brást ókvæða við ræðu íranska starfsbróður síns, Hassan Rouhani, sem sá síðarnefndi flutti í nótt. Í ræðu sinni gagnrýndi Rouhani Bandaríkin og varaði stjórnvöld í Washington við því að grafa enn frekar undan sambandi ríkjanna. Fari svo að til átaka komi milli Írans og Bandaríkjanna verði það „stríð allra stríða,“ fordæmalausar blóðsúthellingar.

Ræðan fór ekki framhjá Donald Trump sem skrifaði beint til Íransforseta á Twitter-síðu sinni í nótt. Tíst forsetans var allt í hástöfum og ljóst að Trump var mikið niðri fyrir. Í tístinu segir Trump meðal annars að Íran skuli ekki dirfast að hóta Bandaríkjunum aftur, annars muni ríkið þurfa að upplifa afleiðingar sem eigi sér enga hliðstæðu í mannkynssögunni. Bandaríkin eru ekki ríki sem muni sitja undir slíkum hótunum þegjandi og hljóðalaust. „Farið varlega!“ skrifar Bandaríkjaforseti.

Samband Írans og Bandaríkjanna hefur versnað hratt á síðustu mánuðum eða allt frá því að Trump dró stjórnvöld sín út úr kjarnorkusamningnum við Íran. Samningurinn, sem gerður var í stjórnartíð Obama með aðkomu annarra stórvelda og Evrópusambandsins, var talinn mikið afrek á sínum tíma og varð til þess að viðskiptaþvingunum var aflétt af Írönum sem á móti drógu úr kjarnorkuframleiðslu sinni.

Það hefur þó ekki verið mikill sáttatónn í yfirlýsingum bandarískra embættismanna að undanförnu. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði á dögunum að írönsk stjórnvöld væru mafía sem hefðu rakað að sé auðæfum á meðan þjóðin ætti varla til hnífs og skeiðar. Þar að auki væru trúarlegir leiðtogar Írans „heilagir hræsnarar.“ John Bolton, einn helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í utanríkismálum, er einnig opinber talsmaður þess að Bandríkjaher geri innrás í Íran og velti núverandi stjórnvöldum úr sessi.

Í ræðu sinni í nótt ávarpaði Íransforseti Trump og sagði að sá bandaríski ætti ekki að leika sér að „hala ljónsins,“ það muni aðeins leiða til eftirsjár. „Bandaríkin ættu að átta sig á að friður við Íran er friður allra friða, og stríð við Íran yrði stríð allra stríða,“ bætti Rouhani við.

Hinar nýju viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin hafa lagt á Íran munu taka gildi 4. ágúst næstkomandi. Fréttaskýrendur óttast að ef þvinganirnar muni hafa lamandi áhrif á íranskan efnahag kunni það að ýta undir herskáar yfirlýsingar frá stjórnvöldum í Teheran.


Tengdar fréttir

Pompeo boðar aðgerðir gegn Íran

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í ræðu sinni aðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×