Erlent

Trump segir Sanders bera ábyrgð á ofbeldi á framboðsfundum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Mótmælandi er fjarlægður af öryggisvörðum eftir að hann hljóp upp á svið á framboðsfundi Donalds Trump.
Mótmælandi er fjarlægður af öryggisvörðum eftir að hann hljóp upp á svið á framboðsfundi Donalds Trump. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, frambjóðandi í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, segir að óeirðirnar sem brutust út á framboðsfundi hans í Chicago síðastliðið föstudagskvöld og á laugardaginn séu Bernie Sanders, frambjóðanda í forvali demókrata, að kenna.

„Þarna voru atvinnumótmælendur í þúsundatali frá Sanders og einnig í minna mæli frá Hillary,“ sagði Trump í þættinum State of the Union á CNN.

Donald Trump
Sanders hafnaði ásökunum Trumps á sama vettvangi. Hann sagðist vona að stuðningsmenn sínir væru ekki að trufla framboðsfundi en sagði að Trump ætti að líta sér nær þegar kæmi að óeirðunum.

„Hann [Trump] er maður sem ýjar að ofbeldi, en þá færðu einmitt það sem þú kallar eftir,“ sagði Sanders.

Sanders fullyrðir að fyrirmæli um að trufla framboðsfundi Trumps hafi ekki komið úr herbúðum sínum en hins vegar hefur sjálfstæður hópur stuðningsmanna Sanders lýst yfir ábyrgð á því að hafa truflað framboðsfund Trumps á föstudaginn.

Fjöldi mótmælenda hefur mætt á framboðsfundi Trumps undanfarna mánuði en nú virðist byrjað að sjóða upp úr. Trump þurfti að hætta við framboðsfund sinn á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×