Erlent

Trump neitar að samþykkja niðurstöðu FBI

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Alríkislögregla Bandaríkjanna ætlar ekki að breyta þeirri niðurstöðu sinni að Hillary Clinton verði ekki ákærð vegna tölvupóstamálsins svokallaða. Eftir að hafa farið yfir tölvupósta sem fundust í tölvu fyrrum þingmannsins Anthony Weiner var ákvörðunin um að breyta ekki fyrri ákvörðun stofnunarinnar tekin í gær.

Donald Trump, mótframbjóðandi Clinton, ætlar hins vegar ekki að sætta sig við þá niðurstöðu.

 „Það er ekki hægt að skoða 650 þúsund tölvupósta á átta dögum,“ sagði hann á kosningafundi í nótt. Þar hélt hann því fram, eins og hann hefur margsinnis gert, að Hillary Clinton væri spilltasti forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna og að „almennir starfsmenn“ FBI myndu ekki leyfa henni að komast upp með sína „hræðilegu glæpi“.

Ljóst er að um 650 þúsund tölvupóstar voru í tölvu Weiner, sem er eiginmaður   Huma Abedin, aðstoðarkonu Clinton, en FBI hefur gefið út að minnihluti þeirra pósta hafi komið frá Clinton eða verið sendir til hennar.

Þrátt fyrir að FBI hafi varið um ári í að rannsaka tölvupósta Hillary Clinton hélt Trump því fram í nótt að rannsóknir á „glæpum“ Clinton myndu halda áfram.


Tengdar fréttir

Clinton lét húshjálpina prenta út leynileg skjöl

Bandaríkjamenn kjósa nýjan forseta á morgun. Valið stendur á milli Donalds Trump og Hillary Clinton. Skoðanakannanir benda til lítils forskots Clinton. Forskot hennar hefur minnkað undanfarið vegna tölvupóstahneykslis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×