Erlent

Trump meinað að útiloka gagnrýnisraddir á Twitter

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er afar virkur á Twitter.
Donald Trump er afar virkur á Twitter. Vísir/Getty
Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur verið meinað að loka á gagnrýnisraddir með því að „blokka“ eða útiloka þá sem gagnrýna hann á samfélagsmiðlinum Twitter. Þetta er niðurstaða í dómsmáli sem höfðað var af sjö einstaklingum sem útilokaðir voru frá því að senda Trump skilaboð.

Notendur Twitter geta á tiltölulega auðveldan hátt blokkað eða útilokað þá sem þeir vilja ekki eiga í samskiptum við. Það var það sem Donald Trump eða starfsmenn hans gerðu við minnst sjö einstaklinga sem gagnrýndu Trump á Twitter.

Höfðuðu þeir mál gegn Trump, Dan Scavino, yfirmanni samskiptamiðladeildar Hvíta hússins og Sean Spicer, þáverandi fjölmiðlafulltrúa Trump. Var málið höfðað á grundvelli þess að útilokun frá Twitter-reikningi Trump fæli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum borgara Bandaríkjanna af hálfu Hvíta hússins, samkvæmt fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar sem tryggir meðal annars málfrelsi í Bandaríkjunum.

Málið var höfðað í New York og í dómi Naomi Reice Buchwald sem dæmdi í málinu segir að forseti Bandaríkjanna megi ekki brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti Bandaríkjamanna til að gagnrýna forsetann. Þrátt fyrir að brotið væri ekki alvarlegt fæli útilokunin engu að síður í sér skerðingu á málfrelsi þeirra sem höfðuðu málið.

Vörn lögmanna Hvíta hússins byggðist á því að þrátt fyrir að þeir sem voru blokkaðir gætu ekki sent Trump skilaboð gætu þeir en séð tíst forsetans, sem hafa í forsetatíð hans orðið ein helsta leið hans til þess að koma skilaboðum á framfæri við almenning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×